Fullt út úr dyrum í íslenskri guðsþjónustu á Kanaríeyjum
Kór Árbæjarkirkju hélt ásamt kórstjóra Krisztina Kalló Szklenarne og Sigrúnu Óskarsdóttur presti í ferð til Kanaríeyja 10. febrúar. Aðdragandi ferðarinnar var langur en til stóð að fara fyrir ári síðan. Eftir efnahagshrunið var ákveðið að bíða átekta og svo var ákveðið með bjartsýni og jákvæðni í farteskinu að láta drauminn rætast.
Prestur í þjónustu við Íslendinga á Kanaríeyjum sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir var hópnum innan handar í skipulagningu. Hún hefur undanfarin ár haft aðstöðu yfir vetrarmánuðina í Kirkjumiðstöðinni Templo Ecumenico de Salvador í félagskap fleiri kirkjdeilda frá ýmsum löndum. Hópurinn lenti um miðjan dag í fallegu veðri. Organisti og prestur höfðu mælt sé mót við sr. Jónu Lísu seinnipartinn og tóku þátt í fallegri bænastund í kapellu kirkjunnar. Það urðu fagnaðarfundir, organistinn prófaði orgelið og prestarnir lögðu lokahönd á verkaskiptingu guðsþjónustunnar.
Kirkjan er mjög ásetin og fjölbreytt starfsemi er þar í boði á ýmsum tungumálum. Á fimmtudagskvöld kl. 19 var kórinn mættur hálftíma fyrir athöfn til að hita upp og stilla saman strengi. Þýsk messa stóð yfir og kórinn ásamt stjórnanda fór í blíðskapar veðri út undir kirkjuvegg í upphitun. Fólk var þegar tekið að streyma að. Við vorum undrandi og glöð að sjá þegar klukkan var að verða 19.30 að kirkjan var orðin full af fólki, búið að sækja alla lausa kolla og svo stóð fólk í andyrinu.
Það var góð stemning, hlýja í loftinu og það sama átti við um viðmót og andrúmsloft á staðnum. Það var hreint stórkostleg upplifun að taka þátt í þessari stund, kórinn söng fallega og söfnuðurinn tók undir í svörum og söng af mikilli innlifun. Ekki færri en 350 íslendingar og nokkrir annarra þjóðerna fylltu þessa fallegu kirkju. Samfélags Guðs og manna birtist þarna í fagurri mynd.
Það var dýrmætt að verða vitni að því merka starfi sem sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir vinnur á Kanaríeyjum í þágu kirkju og þjóðar. Tvo morgna í viku er hún til viðtals á kaffihúsi sænsku kirkjunnar í safnaðarheimili Templo Ecumenico de Salvador. Undirrituð mætti báða morgnana og þar var glatt á hjalla. Það var þétt setið við stórt hringborð og þröskuldar lágir fyrir þau sem þurftu að hitta prestinn sinni. Þarna eins og svo víða fer starf kirkjunnar ekki hátt en það er mikilvægt þeim sem þjónustunnar njóta.
Nánar