Hugarró á aðventu 15. desember kl. 20:00 í Árbæjarkirkju
Margrét Árnadóttir söngkona flytur undurljúfa tónlist – róleg og falleg bænalög úr ýmsum áttum í bland við hugljúf jólalög. Dagskrána nefnir Margrét ,,Hugarró á aðventu” og er það heiti lýsandi fyrir þá hugljúfu hugleiðslustemmingu sem gestum verður boðið upp á.
Hér gefst tækifæri til að hverfa frá amstri og áhyggjum um stund og njóta kyrrðar og hreinsa hugann. Ef til vill kærkomið í skammdeginu og erli hversdagsins.
Til liðs við sig hefur Margrét fengið Kristján Edelstein sem leikur á gítar, en hann hefur jafnframt útsett lögin sem flutt verða. Daniele Basini leikur einnig á gítar og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir á selló.
Í skammdeginu eiga margir erfitt, þegar þunglyndi og hugarvíl herjar á. Getur þá verið upp á líf og dauða að tefla hjá sumum. Sjálfsvíg eru grafalvarlegt vandamál í samfélaginu og skelfileg afleiðing mikilla erfiðleika og veikinda hjá þeim sem verða þeim að bráð.
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Til samtakanna geta leitað einstaklingar og aðstandendur sem vilja fá hjálp og viðtal hjá fagfólki. Lagt er upp úr því að bjóða upp á rólegt og notalegt umhverfi fyrir skjólstæðinga.
Meðferð sem þar er boðið upp á er mótuð af samúð og virðingu fyrir hverjum þeim sem til þeirra leitar og áhersla lögð á lausnir og uppbyggingu. Miðað er að því að leysa yfirstandandi krísu með viðkomandi og glæða von um líf sem er þess virði að lifa. Meðferðin er skjólstæðingum að kostnaðarlausu.
Aðgangseyrir: 3500.-
Allur ágóði af tónleikunum rennur til Pieta samtakanna á Akureyri