Fimmtudaginn 11. apríl kl. 20:15 er von er á góðum gesti í æskulýðsfélagið saKÚL. Stefán Karl Stefánsson leikari og stofnandi Regnbogabarna mun koma og ræða við unglingana um einelti. Stefán hefur helgað sig baráttunni gegn einelti og þekkir að eigin raun hvað einelti getur haft alvarlegar afleiðingar og skilið eftir sig djúp spor.
Unnið hefur verið eftir ungmennalýðræði
Í æskulýðsfélaginu saKÚL hefur í vetur verið unnið eftir ungmennalýðræði, þar sem unglingarnir koma fram með tillögur að viðfangsefnum vetrarins. Stofnað var ungmennaráð innan æskulýðsfélagsins og kosinn formaður. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og skilað sér í áhugasömum unglingum sem eru tilbúin að leggja mikið á sig til að hugmyndir þeirra komist í framkvæmd. Hugmyndin að eineltisfundi er komin frá unglingunum, þar sem þau hafa sjálf, eða þekkja í flestum tilfellum einhvern, sem hefur lent í þeim erfiðu aðstæðum sem einelti er.