5881447896_e0160271de_b Það var með bréfi Dóms og kirkjumálaráðuneytis að samþykkt var að skipta Lágafellssókn í Kjalarnesprófastsdæmi í tvær sóknir. Lágafellssókn og Árbæjarsókn. Hinn 4. febrúar. 1968 var almennur safnaðarfundur haldinn í andyri barnaskólans í Rofabæ, eins og segir í þeirra tíma heimildum. Árbæjarsókn var síðan gerð að sérstöku prestakalli í Reykjavíkurprófsastdæmi 1. janúar 1971.

Fyrsti sóknarprestur prestakallsins var sr. Guðmundur Þorsteinsson. Fyrstu árin bjó söfnuðurinn við nokkurt aðstöðuleysi en fékk þó fljótlega starfsaðstöðu í barnaskólanum fyrir guðsþjónustur, sunnudagaskóla og æskulýðsstarf. Einnig fór fram starf á vegum safnaðarins í litlu húsi við Hlaðbæ, sem framfarafélag hverfisins átti upphaflega. Og safnkirkjan litla í Árbæjarsafni kom að góðar þarfir, auk þess sem afnot fengust af Dómkirkjunni fyrir fermingar á vegum safnaðarins á vorin. Fram að því höfðu allar helstu athafnir í sókninni farið fram frá Safnkirkjunni eða frá kringum 1960, en Bjarni Sigurðsson sóknarprestur Lágafellssóknar messaði reglulega í þeirri kirkju. Íbúar Árbæjar á þeim tíma voru u.þ.b. 200-300 manns. Fljótlega eftir að prestakallið var stofnað var farið huga að því að koma upp aðstöðu. Einsýnt þótti að forgangsverkefni var að koma upp safnaðarheimili og kirkju. Fyrsta skóflustungan var tekin 26. ágúst 1973 og 19. mars 1978 var safnaðarheimilið vígt, sem nú er jarðhæð kirkjunnar.

Lokaáfangi byggingarinnar hófst haustið 1982 og var kirkjuskipið fokhelt síðla árs 1984. Kirkjan var loks vígð 29. mars 1987. Í upphafi voru ráðnir arkitektarnir Manfreð vilhjálsmsson og Þorvaldur S. Þorvaldsson, en eftir að Þorvaldur gerðist forstöðumaður borgarskipulags sá Manfreð einn um hönnun hússins og hefur séð um alla verkþætti innan dyra. Aðstaða safnaðarins vænkaðist til ýmissa góðra verka. En áfram skyldi haldið í umhverfi þar sem ekki var mikið um peninga en byggt á velvild og fórnfýsi fólks í söfnuðinum.

Bygging sjálfrar kirkjunnar stóð yfir í ein 5 ár frá 1982-1987. Klukkuturn og kirkjuklukkur voru vígðar við jólamessu 1980. Það var mikil gleði og fögnuður í söfnuðinum er víglsudagurinn rann upp 29.mars 1987. Jókst þá safnaðarstarfið ár frá ári með fjölgun starfsmanna og stendur nú með miklum blóma.

Á vefnum kirkjuklukkur.is má heyra klukknahringingar Árbæjarkirkju.

Árbæjarkirkja

Skýring höfundar, Manfreðs Vilhjámssonar

5881449724_84f5cbab8d_bÁrbæjarkirkja rís hátt upp af bökkum Elliðaánna og ber því víða fyrir augu í Árbæjarhverfi. Að fornum sið er klukknaport framan við kirkju. Einnig er þar „kirkjutorg“. Ljósið, sólarljósið, hefur ráðið mestu um form kirkjunnar. Inn um háreistan glugga yfir altari fellur ljósið niður sem foss. Ljósið seytlar einnig niður með langveggjum kirkjunnar.

Timburloftið yfir kirkjuskipi eins og svífur á milli hinna hrjúfu steinveggja. Safnaðarsalur er í beinu framhaldi af kirkju, þannig að skil milli þessara rýma eru óglögg. Kirkjurýmið getur vaxið inn í safnaðarsal. Stór gluggi á safnaðarsal opnar fagurt útsýni yfir Elliðaárdal. Í fordyri kirkjunnar fellur ljósið einnig að ofan. … Kirkjan er klædd að innan með einföldum og ódýrum efnum, þ.e. hraunaðir veggir og hvítkölkuð fura í loftum. Gólf eru með gráum steinflísum. Litir eru ljósir og hlutlausir nema purpuralitur á sessum kirkjubekkja.

Við hönnun á innréttinum er reynt að láta efnið njóta sín og öll form höfð einföld og sterk. Innréttingar eins og altari, predikunarstóll og „himinn“ þar yfir og kirkjubekkir eru smíðaðir úr furu (límtré) og hvítkalkað. Kirkjan er raflýst með fjöldamörgum nöktum, glærum ljósaperum, sem gefa kirkjunni hátíðlegan blæ, þegar ljós eru kveikt. Við alla hönnun innandyra hef ég leitast við að skapa rólegt andrými um hinar kirkjulegu athafnir. Þessu hef ég reynt að ná fram með ljósi, litum, áferð og efnisvali.

Orgel Árbæjarkirkju

Orgelið ber ópustöluna 20 frá orgelverkstæðinu Blikastöðum í Mosfellssveit. Orgelið er það stærsta sem hingað til (mars 2000) hefur verið smíðað að Blikastöðum, en það hefur 22 raddir sem skipast á tvö hljómborð og pedal. Hljóðfærið hefur samtals 1454 pípur, þar af 144 trépípur, smíðaðar úr eik og furu. Málmpípurnar eru úr hinum ýmsu tin- og blýblöndum.

Pípur í orgelframhlið eru úr 75% tini og eru þær burstaðar með stálull sem gefur þeim hina möttu áferð. Orgelhúsið er smíðað úr amerískri furu, sem fyrir lökkun er meðhöndluð með hvítu bæsi. Orgelið hefur mekanískan áslátt en raddtengsl eru rafknúin og tengd svokölluðum „Setzer“. Við smíði orgelsins unnu Björgvin Tómasson, Hallfríður Guðmundsdóttir, Jóhann Hallur Jónsson, Pétur Eiríksson og Þórdís Halldórsdóttir.

Ljósstafir

Altarisverk í Árbæjarkirkju

5881445882_a81e9bfd55_bTærleiki og ljós eru þau áhrif sem unnið er með í listaverkinu. Efni verksins er kristalgler, en kristalgler er tærara og ljósbrot skýrari í því heldur en þegar um venjulegt gler er að ræða. Heildarhæð verksins er tæpir 10 metrar. Verkið samanstendur úr fimmtíu og tveimur mismunandi glereiningum, sem eru 7 sm á þykkt. Aðeins fá glervinnsluverkstæði í heiminum ráða við að steypa kristalgler í þeim stærðum sem hér um ræðir, og var glerið steypt hjá Lindshammer í Svíþjóð.

Glerið er fölgrænt á lit og formað þannig að ljósbrot myndast inni í einingunum. Liturinn getur minnt á ljósbrot á himni eða í hafi, en hann er jafnframt valinn með hliðsjón af grænum tóni í steinflísum á gólfinu. Glerið er fest framan við gaflvegg kirkjunnar með festingum úr ryðfríu stáli, sem Sigurður Steinbergsson vélsmiður smíðaði. Hann sá einnig um uppsetningu verksins með listamanninum Rúrí.

Tærleiki og ljós hafa táknræna merkingu, og er þar vísað til hvorutveggja, náttúrunnar og kristinnar trúar: „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. En jörðin var auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu og Guðs andi sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: Verði ljós! Og það varð ljós.“ Genesis – Fyrsta bók Móse. Sköpun heimsins. Ég tileinka verkið samferðamönnum mínum, lífs og liðnum. Rúrí – 7. október 1998

Saga kvenfélags Árbæjarsóknar

Kvenfélag Árbæjarsóknar var stofnað 3. desember 1968. Félagið er aðilarfélagi í Bandalagi kvenna i Reykjavík. Fremst í flokki að undirbúningi félagsstofnunarinnar var frú Kristín Jóhannsdóttir, Selásbletti 3.

Kristín var ein af frumbyggjum Selás- og Árbæjarhverfis og hafði lengi borið þá von í brjósti að með  uppbyggingu hverfisins og væntanlegri breytingu frá því að vera hluti af Mosfellsprestakalli æi það að verða sókn, yrði unnt að stofna kvenfélag sem fyrst og fremst ynni að velferð kirkju og safnaðarstarfs.

Það má í raun og veru segja að í mörg ár hafi Kristín unnið á við heilt kvenfélag, og eygði hún möguleika á því að fá til lið s við sig og virkja áhugasamar konur til þess að vinna að undirbúningi og stofnun félags. Skemmst er frá því að segja að undirbúningur allur gekk fram úr björtustu vonum á haustdögum 1968 og á  stofnfundi sama ár 3. desember voru um 130 hressar konur skráðar í félagið og tilbúnar til að vinna og hlúa að félagsstarfinu.

Velvilji skólastjóra Árbæjarskóla, Jóns Árnasonar, gerði félaginu kleift að halda svo fjölmenna fundi með því að leyfa fundarhöld í anddyri barnaskólans fyrtu árin.

Fyrsta stjórn félagsins er þannig skipuð:

  • Margrét S. Einarsdóttir, formaður
  • Ruth Sigurðardóttir, ritari
  • Dóra Diegó Þorkelsdóttir, gjaldkeri
  • Kristín Jóhannesdóttir, varaformaður
  • Magdalena Elíasdóttir, vararitari
  • Laufey Magnúsdóttir, varagjaldkeri
  • Sigríður Andrésdóttir, meðstjórnandi